
Í dag er liðið eitt ár frá því ég fór í langþráða magahjáveituaðgerð í Lettlandi þann 30. júní 2018. Á þessu eina ári hef ég öðlast nýtt og betra líf, og endurheimt svo margt sem ég var orðin vondauf um að ég fengi að eiga aftur. Ég á enn og mun alltaf eiga í baráttu við minn sjúkdóm, offitu, en ég hef fengið öflugt vopn með hjáveituaðgerðinni. Það er mikið þakkarefni að endurheimta heilsuna og þakklæti er mér efst í huga á þessum degi. Ég er þakklát að geta gengið á fjöll, farið út að skokka, eða bara labbað upp tröppur án þess að standa á öndinni.
Myndin vinstra megin er tekin daginn áður en ég fór í aðgerðina í Lettlandi. Ég er þakklát þessari hugrökku konu sem lagði í þetta ferðalag fyrir ári síðan, því það var ekki auðvelt, en ég sé svo sannarlega ekki eftir því! Í dag eru 80 kg farin. Útlitslega er breytingin mikil og ekki undarlegt að fólk tjái sig um það við mig, nær eingöngu með hlýjum og góðum ásetningi, og oft fæ ég að heyra að ég sé ,,að hverfa”. Það er samt eiginlega alveg öfugt við það hvernig mér líður. Ég er ekki að hverfa, ég er að koma í ljós. Eftir öll þessi ár í klóm offitunnar, er ég loks farin að sjá MIG í speglinum. ❤
Ég er endalaust þakklát fyrir það líf sem ég á í dag, líf sem var eins og fjarlægur draumur bara fyrir ári síðan! Og ég vona að ég fái að vera í bata um ókomin ár og viðhalda þeirri bættu heilsu sem ég hef öðlast ❤️
Helga Kolbeinsdóttir